KR-ingar duttu niður um eitt sæti í Pepsi-deild karla í gær og sitja nú í síðasta örugga sæti deildarinnar þegar tíu umferðir eru búnar af mótinu.
KR-ingar skoruðu ekki í tíundu umferðinni en fengu þó eitt stig í markalausu jafntefli á móti Víkingi Ó. á heimavelli og enduðu þar með þriggja leikja taphrinu sínu.
Fylkismenn skoruðu hinsvegar fjögur mörk í umferðinni og Þróttur náði að setja eitt mark þrátt fyrir þriggja marka tap. Það þýddi að þótt að KR sleppi við botnsætið þegar kemur að stigum í húsi þá sitja KR-ingar einir á botninum á listanum yfir skoruð mörk.
KR hefur aðeins skorað 2 mörk í síðustu 4 leikjum sínum í Pepsi-deildinni og markatala KR-inga á síðustu 410 mínútum liðsins í Pepsi-deildinni er -5 (2-7).
KR-liðið hefur skorað undir eitt mark að meðaltali í leik bæði á heimavelli (0,83) og á útivelli (0,75) í Pepsi-deildinni í sumar.
Garðar Gunnlaugsson tryggðu Skagamönnum sigur á Blikum með sínu sjötta marki í þremur leikjum. Hann hefur nú skorað einu marki meira en allt KR-liðið og er markahæstur í Pepsi-deildinni.
Aðeins tveir KR-ingar hafa náð því að skora meira en eitt mark en það eru Kennie Knak Chopart og Óskar Örn Hauksson sem báðir eru með 2 mörk í fyrstu 10 umferðunum.
KR-liðið er þó ekki í neðsta sæti yfir mörk á heimavelli þrátt fyrir að þau nái ekki einu marki í leik. Bæði Breiðablik (3 mörk á heimavelli) og Fylkir (4 mörk á heimavelli) hafa skorað minna á heimavelli sínum í Pepsi-deildinni í sumar heldur en KR.
KR-ingar hafa aftur á móti skorað fæst mörk á útivelli eða einu marki færri en Reykjavíkurliðin Valur og Þróttur (4 útimörk hvort lið).
Næsti leikur KR í deildinni er á móti Fylki á sunnudaginn kemur en tapi KR-ingar þeim leik þá eru þeir komnir niður í fallsæti.
Flest mörk í fyrstu 10 umferðum Pepsi-deildar karla 2016:
1. Fjölnir 22
2. Stjarnan 18
3. Valur 15
4. FH 14
4. Víkingur Ó. 14
4. Víkingur R. 14
7. ÍA 12
8. ÍBV 11
9. Breiðablik 10
10. Fylkir 9
10. Þróttur R. 9
12. KR 8
