Enski boltinn

Meiddur Rams­ey stýrir Car­diff út tíma­bilið

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Spreytir sig sem þjálfari út tímabilið.
Spreytir sig sem þjálfari út tímabilið. Marc Atkins/Getty Images

Cardiff City hefur rekið þjálfarann Omer Riza þegar þrír leikir eru eftir af tímabilinu í ensku B-deild karla í knattspyrnu. Hinn meiddi Aaron Ramsey mun stýra liðinu í leikjunum sem framundan eru en liðið er í bullandi fallbaráttu.

Freyr Alexandersson, þjálfari Brann í dag, var orðaður við Cardiff City þegar hann var þjálfari KV Kortrijk í Belgíu þar sem félögin eru í eigu sama einstaklings. Freyr færði sig ekki um set og var á endanum látinn fara frá Kortrijk. Hvort hann væri enn í starfi hjá Cardiff er ólíklegt þar sem allt hefur gengið á afturfótunum hjá liðinu á leiktíðinni.

Félagið rak hinn tyrkneska Erol Bulut eftir skelfilega byrjun í september síðastliðnum. Omer Riza, aðstoðarmaður hans, tók við liðinu og stýrði því þangað til í dag þegar hann var látinn fara eftir slakt gengi undanfarið. Liðið hafði aðeins unnið tvo af síðustu 10 leikjum sínum og er í fallsæti þegar þrjár umferðir eru eftir.

Það kemur í hlut hins 34 ára gamla Ramsey – sem lék á sínum tíma með Arsenal og Juventus ásamt því að spila 86 A-landsleiki fyrir Wales – að reyna halda Cardiff City í ensku B-deildinni.

Ramsey er uppalinn hjá Cardiff og sneri aftur í raðir félagsins árið 2023. Líkt og lungann af hans ferli hafa meiðsli hrjáð hann síðan hann sneri til baka og mun hann ekki spila með liðinu það sem eftir lifir leiktíðar. Hann fær þó tækifæri til að leggja sitt á vogarskálarnar af hliðarlínunni.

Cardiff er sem stendur í 23. sæti með 42 stigi, aðeins stigi frá öruggu sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×