Handbolti

Gunnar: Byrjunin á tímabilinu vonbrigði

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka, sagði slakan sóknarleik hafa orðið sínum mönnum að falli gegn Val í kvöld.

„Sóknin var ekki nógu beitt. Við vorum óvenju staðir og hægir þar og það vantaði flæði og hraða. Svo þurfum við að gefa Bubba [Hlyni Morthens, markverði Vals] kredit, hann tók mörg dauðafæri, sérstaklega í fyrri hálfleik. Það gerði okkur erfitt fyrir,“ sagði Gunnar.

Valsmenn leiddu með þremur mörkum í hálfleik, 14-11, og skoruðu svo fyrstu fjögur mörkin í seinni hálfleik.

„Við vorum lengi í gang og brotnuðum kannski aðeins. Ég held við höfum farið með 8-9 dauðafæri í fyrri hálfleik sem var erfitt. En við komum til baka eftir mótlætið í byrjun seinni hálfleiks og fengum tækifæri til að komast inn í leikinn,“ sagði Gunnar. En hvað vantaði upp á svo Haukar næðu að jafna metin undir lok leiksins?

„Betri nýtingu og betri sóknarleik. Við erum ánægðir með vörnina. Það er erfitt að eiga við þá því þeir fá að spila mjög lengi,“ sagði Gunnar sem er ósáttur með uppskeruna til þessa á tímabilinu en Haukar eru aðeins með tvö stig eftir fyrstu fjórar umferðirnar.

„Þetta eru vonbrigði. Ég er ekki ánægður með þetta og við þurfum að vinna vel í okkar málum og leggja mikið á okkur,“ sagði Gunnar að endingu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×