Enski boltinn

Fyrsti sigur Watford á Everton í 29 ár | Sjáðu mörkin

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Watford lyfti sér upp í 7. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 3-2 sigri á Everton í fyrsta leik dagsins. Þetta var fyrsti sigur Watford á Everton frá árinu 1987.

Stefano Okaka skoraði tvívegis fyrir Watford sem er með 21 stig, jafn mörg og Manchester United. Everton, sem hefur gefið mikið eftir á undanförnum vikum, er í 9. sætinu með 20 stig.

Romelu Lukaku kom Everton yfir á 17. mínútu eftir sendingu frá Gareth Barry sem lék sinn 609. úrvalsdeildarleik í dag. Hann vantar nú aðeins 23 leiki til að jafna leikjamet Ryans Giggs.

Okaka jafnaði metin með laglegri hælspyrnu eftir sendingu Nordins Amrabat á 36. mínútu og staðan var 1-1 í hálfleik.

Austurríski miðvörðurinn Sebastian Prödl kom Watford yfir með skalla eftir aukaspyrnu José Holebas á 59. mínútu. Og fimm mínútum síðar skoraði Okaka öðru sinni, með skalla eftir hornspyrnu frá Holebas.

Lukaku hleypti spennu í leikinn þegar hann minnkaði muninn í 3-2 á 86. mínútu en nær komust gestirnir frá Liverpool ekki. Lokatölur 3-2, Watford í vil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×