Enski boltinn

Southampton á Wembley í fyrsta sinn í 38 ár | Sjáðu markið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Southampton er komið í úrslit enska deildarbikarsins í fyrsta sinn í 38 ár eftir 0-1 sigur á Liverpool á Anfield í kvöld. Shane Long skoraði eina mark leiksins í uppbótartíma.

Southampton vann fyrri leikinn einnig 1-0 og einvígið því 2-0 samanlagt.

Liverpool var miklu meira með boltann í leiknum í kvöld en Dýrlingarnir fengu bestu færin í fyrri hálfleik.

Dusan Tadic fékk það besta en Loris Karius varði vel frá Serbanum. Færið kom eftir undirbúning Nathans Redmond sem var mjög hættulegur í fyrri hálfleiknum.

Í þeim seinni jók Liverpool pressuna til muna og markið lá í loftinu. Það kom þó aldrei. Daniel Sturridge fór illa með tvö góð færi og þá var Emre Can hársbreidd frá því að skora. Þjóðverjinn átti þá skot sem Fraser Forster missti frá sér en hann bjargaði sér fyrir horn og sló boltann frá áður en hann fór yfir marklínuna.

Í uppbótartíma skoraði Long svo eina mark leiksins eftir skyndisókn og sendingu frá Josh Sims. Lokatölur 0-1, Southampton í vil.

Southampton mætir annað hvort Manchester United eða Hull City í úrslitaleiknum á Wembley 26. febrúar næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×