Enski boltinn

Manchester City fór illa með uppáhaldsmótherjann sinn | Sjáðu mörkin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmönnum Manchester City virðist líða hvergi betur en á London leikvangi þeirra West Ham manna og lærisveinar Pep Guardiola sýndu það enn á ný í stórsigri í London í kvöld.

Manchester City vann þá 4-0 sigur á West Ham í 23. umferð ensku úrvalsdeildarinnar en hafði fyrir aðeins 26 dögum unnið 5-0 sigur í enska bikarnum á sama stað. City vann alla þrjá leiki liðanna í vetur og skoraði í þeim tólf mörk.

Kevin De Bruyne og David Silva komu Manchester City í 2-0 á fyrst tuttugu mínútum leiksins og þá var ljóst í hvað stefndi.

Nýi maðurinn Gabriel Jesus bætti við þriðja markinu fyrir hlé og fjórða markið skoraði síðan Yaya Toure úr víti. Raheem Sterling fiskaði vítið og átti einnig stoðsendinguna á Gabriel Jesus.

Manchester City komst með þessu á sigurbraut í deildinni eftir að hafa aðeins náð í samtals fjögur stig úr síðustu fjórum deildarleikjum sínum.

Manchester City hristi líka af sér vandræði á útivöllum en liðið hafði tapað tveimur síðustu útileikjum sínum í deildinni fyrir Liverpool (0-1) og Everton (0-4).

West Ham var búið að vinna báða deildarleiki sína frá skellinum í bikarnum og skora í þeim sex mörk en West Ham geta þakkað fyrir það að þurfa ekki að mæta Manchester City aftur á tímabilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×