Handbolti

Sagosen bjargaði Álaborg í fyrsta úrslitaleiknum

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Aron Kristjánsson þjálfar lið Álaborgar.
Aron Kristjánsson þjálfar lið Álaborgar. mynd/álaborg
Fyrsti leikur Íslendingaliðanna Álaborgar og Skjern í baráttunni um danska meistaratitilinn í handbolta var æsispennandi. Leiknum lyktaði með jafntefli, 26-26.

Það var Norðmaðurinn Sander Sagosen sem tryggði Álaborg jafntefli með marki nokkrum sekúndum fyrir leikslok. Skjern var næstum því búið að vinna þó svo liðið hefði aðeins verið yfir í leiknum í 62 sekúndur.

Strákarnir hans Arons byrjuðu leikinn mun betur og leiddu með þriggja marka mun, 14-11, í hálfleik.

Skjern kom til baka í síðari hálfleik og þegar 20 mínútur voru eftir af leiknum náði liðið að jafna, 17-17.

Liðin héldust í hendur í kjölfarið en Skjern tókst þó ekki að komast yfir. Ekki fyrr en rúm mínúta var eftir. Þá kom Lasse Mikkelsen Skjern yfir, 25-26. Það var í fyrsta skiptið sem Skjern komst yfir í öllum leikjum.

Arnór Atlason, sem hafði lítið spilað, tók skot fyrir Álaborg er 36 sekúndur voru eftir en það var varið. Hans fyrsta og eina skot í leiknum.

Skjern þurfti bara að halda boltanum í 30 sekúndur en liðið missti boltann er 15 sekúndur voru eftir. Það nýtti Álaborg sér og Norðmaðurinn Sander Sagosen jafnaði leikinn, 26-26, er sjö sekúndur voru eftir.

Ekki er framlengt í úrslitunum fyrr en þess þarf og því er enn jafnt á milli liðanna eftir fyrsta leikinn. Annar leikur liðanna fer fram í Skjern á sunnudag.

Sagosen var markahæstur í liði Álaborgar með átta mörk eins og Patrick Wiesmach. Janus Daði Smárason var sterkur með fjögur mörk og fjórar stoðsendingar fyrir liðið. Arnór og Stefán Rafn Sigurmansson komust ekki á blað.

Tandri Már Konráðsson var í liði Skjern en fékk ekki að spreyta sig í sóknarleiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×