Fótbolti

Markalaust í Dublin

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Katrín Ásbjörnsdóttir, markahæsti leikmaður Pepsi-deildar kvenna, var í byrjunarliðinu í Dublin.
Katrín Ásbjörnsdóttir, markahæsti leikmaður Pepsi-deildar kvenna, var í byrjunarliðinu í Dublin. mynd/hafliði breiðfjörð
Ísland og Írland gerðu markalaust jafntefli í vináttulandsleik á Tallagt vellinum í Dublin í kvöld.

Þetta var næstsíðasti leikur íslenska liðsins fyrir EM í Hollandi í næsta mánuði. Kveðjuleikurinn fyrir EM er gegn Brasilíu á Laugardalsvellinum á þriðjudaginn kemur.

Leikurinn í kvöld einkenndist af mikilli baráttu. Þá gerðu aðstæður liðunum erfitt fyrir en það hellirigndi fyrir leik og í seinni hálfleik.

Írska liðið lá aftarlega í leiknum og það íslenska stjórnaði ferðinni og fékk bestu færin.

Hallbera Guðný Gísladóttir skaut yfir úr úrvalsfæri eftir rúman hálftíma sem og Katrín Ásbjörnsdóttir um miðjan seinni hálfleik. Í uppbótartíma var Berglind Björg Þorvaldsdóttir svo hársbreidd frá því að skora sigurmark Íslands.

Hún átti þá skalla í gegnum klofið á Marie Hourihan í marki Íra sem náði að bjarga sér á endanum.

Ingibjörg Sigurðardóttir lék allan tímann í vörn Íslands, í sínum fyrsta landsleik, og stóð sig vel. Agla María Albertsdóttir lék sömuleiðis sinn fyrsta leik í byrjunarliði Íslands. Þá lék Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir rúman klukkutíma í nýrri stöðu, sem vængbakvörður.

Byrjunarlið Íslands var þannig skipað:

Markvörður: Guðbjörg Gunnarsdóttir (46. Sandra Sigurðardóttir)

Varnarmenn: Glódís Perla Viggósdóttir, Sif Atladóttir (46. Málfríður Erna Sigurðardóttir) og Ingibjörg Sigurðardóttir

Vængbakverðir: Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir og Hallbera Guðný Gísladóttir

Miðjumenn: Sara Björk Gunnarsdóttir, fyrirliði, og Sigríður Lára Garðarsdóttir (66. Rakel Hönnudóttir)

Framherjar: Fanndís Friðriksdóttir (68. Svava Rós Guðmundsdóttir), Katrín Ásbjörnsdóttir (80. Berglind Björg Þorvaldsdóttir) og Agla María Albertsdóttir




Fleiri fréttir

Sjá meira
×