
Viðskipti innlent
KB banki býður upp á 100% lán

KB banki hefur ákveðið að bjóða upp á 100% íbúðalán líkt og Íslandsbanki kynnti í gær. Í tilkynningu sem bankinn sendi frá sér fyrir stundu segir að framvegis gefist lántakendum kostur á lánsfjárhæð jafn hárri markaðsvirði hinnar veðsettu eignar sé um íbúðakaup að ræða. Lánsfjárhæð með 100% fjármögnun getur að hámarki verið 25 milljónir. Lánað er sem fyrr með 4,2% verðtryggðum, föstum vöxtum. Í ákveðnum tilfellum er nú boðið upp á kaup á viðbótarbrunatryggingu, sé mikill munur á brunabótamati og markaðsvirði eigna. Breytingin tekur gildi um leið og afgreiðslur bankans verða opnaðar á mánudag, eins og í tilfelli Íslandsbanka.