Viðskipti innlent

Ís­lenskur kauphallarsjóður á markað í Banda­ríkjunum

Árni Sæberg skrifar
Til að fagna skráningunni hringdu aðstandendur og samstarfsaðilar sjóðsins bjöllunni á Nasdaq markaðnum í New York þriðjudaginn 15. apríl að viðstöddum fulltrúum skráðra íslenskra félaga og sendiherra Íslands í Bandaríkjunum, ásamt fleirum.
Til að fagna skráningunni hringdu aðstandendur og samstarfsaðilar sjóðsins bjöllunni á Nasdaq markaðnum í New York þriðjudaginn 15. apríl að viðstöddum fulltrúum skráðra íslenskra félaga og sendiherra Íslands í Bandaríkjunum, ásamt fleirum. Glaciershares

Viðskipti með hlutabréf kauphallarsjóðsins GlacierShares Nasdaq Iceland ETF eru hafin á Nasdaq markaðinum í Bandaríkjunum. Það er fyrsti kauphallarsjóðinn sem er skráður erlendis sem fjárfestir í íslenskum hlutabréfum.

Í fréttatilkynningu þess efnis segir að sjóðurinn muni endurspegla MarketVector™ Iceland Global Index – sérhannaða hlutabréfavísitölu sem fylgi frammistöðu skráðra íslenskra félaga, og til að uppfylla alþjóðlegar kröfur, einnig fyrirtækja sem tengjast íslenska hagkerfinu.

„Með skráningu sjóðsins erum við að koma íslenskum félögum á framfæri á stærsta og virkasta hlutabréfamarkaði heims. GlacierShares Nasdaq Iceland ETF brúar þannig bilið milli íslensks hagkerfis og alþjóðlegra fjárfesta með hagkvæmum hætti,“ er haft eftir Helga Frímannssyni, fjárfestingaráðgjafa hjá Glaciershares, rekstraraðila sjóðsins.

Skráningin sé liður í stefnu Glaciershares, sem sé að auka sýnileika og aðgengi að íslenskum hlutabréfum á alþjóðlegum vettvangi. Samhliða þróun markaðarins aukist líkur á að Ísland uppfylli kröfur stærri alþjóðlegra vísitalna í framtíðinni.

„Það er virkilega spennandi að fjárfestar á bandaríska markaðnum geti nú í fyrsta sinn fjárfest í kauphallarsjóði sem fjárfestir á íslenska markaðnum. Hlutabréfamarkaðurinn hér á landi er öflugur og vaxandi markaður með áhugaverð og framsækin fyrirtæki. Við fögnum þessu framtaki,“ er hafi eftir Magnúsi Harðarsyni, forstjóra Nasdaq Iceland.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×