Þessi uppskrift er innblásin af einum besta saltfiskrétti sem ég hef fengið um ævina, en hann fékk ég nýlega á veitingahúsi hér í bæ.
Fiskurinn var borinn fram með sætri sósu og ég reyni hér að ná fram töfrum þessarar sósu. Í þessum rétti er þorskurinn ferskur, en fær saltbragð frá beikoninu. Til hátíðabrigða má nota hráskinku í stað beikonsins.
1 roðflett þorskflak um 500 kr.
6 sneiðar beikon um 400 kr.
Sósa: 4 msk.
ljós púðursykur
2 msk. sojasósa
2 msk. balsam edik
3 dl fisksoð
1 tsk. rifinn engifer
Skerið þorskflakið í fallega bita og vefjið hvern bita með einni beikonsneið. Setjið afskorninga og þunnildi í pott og útbúið fisksoð. Steikið fiskbitana á miðlungsheitri grillpönnu í ca tvær mínútur á hvorri hlið. Setjið því næst bitana í eldfast mót og bakið í 200 gráðu ofni í um 10 mínútur í viðbót. Sósan: Bræðið sykurinn í potti með þykkum botni. Takið þá pottinn af hellunni og hellið sojasósu og ediki saman við sykurbráðina og hrærið vel í um leið. Setjið pottinn aftur á helluna og bætið engifer og fisksoði saman við. Hrærið vel þar til sósan er kekkjalaus. Látið sósuna sjóða nokkra stund þar til hún þykknar örlítið - en sósan á samt að haldast nokkuð þunnfljótandi. Berið fram með salati úr káli og grilluðu grænmeti.
Beikonvafinn þorskur
