Innlent

Enginn fundur enn

Ríkisstjórnin hefur enn ekki verið kölluð saman til aukafundar til að útkljá deilu ríkisstjórnarflokkanna um frumvarp til laga um þjóðaratkvæðagreiðslur. Davíð Oddsson forsætisráðherra sagði fréttamönnum eftir ríkisstjórnarfund í gær að fundur yrði líklega boðaður aftur í dag, frekar en á morgun. Margir ráðherrar ríkisstjórnarinnar eru hins vegar fjarverandi. Ekki færri en þrír ráðherrar eru á hestamannamótinu á Gaddstaðaflötum en þeir eru þó viðbúnir því að vera kallaðir til fundar á hverri stundu. Upp úr sauð á milli ríkisstjórnarflokkanna í gær þegar framsóknarráðherrar yfirgáfu fund ríkisstjórnar eftir tæpar 15 mínútur en ráðherrar sjálfstæðisflokksins sátu sem fastast í klukkustund til viðbótar. Helsti ágreiningur flokkanna snýr að lágmarksþátttöku í þjóðaratkvæðagreiðslunni um fjölmiðlalögin. Nokkrir forystumenn sjálfstæðismanna vilja að minnst 44 prósent atkvæðisbærra manna þurfi til að fella fjölmiðlalögin úr gildi í atkvæðagreiðslu en framsóknarmenn vilja ekki að mörkin verði sett hærra en 30 prósent. Nokkuð hefur borið á í umfjöllun um málið að þessum hugtökum sé ruglað saman við lágmarkskjörsókn. Þar er hins vegar alls ekki um sama hlutinn að ræða. Formenn stjórnarflokkanna freista þess að ná samkomulagi um frumvarpið og fá það samþykkt í ríkisstjórn í dag en það verður lagt fyrir Alþingi á mánudag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×