Innlent

Norðurlöndin verði útundan í ESB

Eftir að José Manuel Durao Barroso var valinn sem forseti framkvæmdastjórnar ESB verður sambandinu stjórnað af þremur einstaklingum frá Pýrenaskaga. Margir óttast því að norræn málefni verði út undan. Frá þessu er sagt í norska blaðinu Hufvudstadsbladet í dag. Forseti þingsins, Josep Borrell, og utanríkisráðherra ESB, Javier Solana, eru báðir Spánverjar. Nú fer ein valdastaðan enn til sama svæðis þegar Barroso tekur við sem forseti framkvæmdastjórnarinnar. „Norræn málefni gætu orðið útundan og óttast ég sérstaklega um framtíð norrænu víddarinnar,“ segir finnski þingmaðurinn og formaður stóru nefndarinnar, Jari Vilén, fyrrverandi fulltrúi í Norðurlandaráði. Hann segir Finnland verða að leggja enn meiri áherslu á málefni sín og samstarfið milli ESB og Rússlands. Jyrki Käkönen, prófessor í Evrópumálum við háskólann í Tammerfors, telur að jafnvel Eystrasaltsríkin geti orðið út undan. Suðrænar áherslur geti haft neikvæð áhrif í för með sér og hætta sé á að peningum, sem eiga að fara í uppbyggingu í nýju ríkjunum, verði stýrt til landanna við Miðjarðarhafið. Vilén og Käkönen telja að megináhersla ESB á næstu árum verði á málefni sem brenna á Miðjarðarhafslöndunum, m.a. á ólöglega innflytjendur, tengsl við Suður-Ameríku og Barcelona- ferlið. Myndin er af José Manuel Durao Barroso, verðandi forseta framkvæmdastjórnar ESB.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×