Lífið

Fundaði með Þórólfi

Götumúsíkantinn Jójó, eða James Clifton eins og hann í raun heitir, þekkir mannlífið á götum borgarinnar betur en flestir. Eftir tuttugu ára spilamennsku um allan heim, segist hann handviss um að miðbærinn væri betri staður ef bílunum fækkaði. "Í öllum stórum borgum hafa göngugötur mikilvægt sálrænt gildi fyrir íbúana og skapa ákeðna samstöðu. Ef við lokuðum fyrir umferð í Austurstræti myndi Lækjartorgið nýtast betur sem samastaður unga fólksins og þar gæti fólk selt bækur og listamenn komið sér fyrir. Umhverfið yrði vistvænna fyrir vikið," segir Jójó, sem að undanförnu hefur beitt sér í málinu og farið á fund með Þórólfi Árnasyni borgarstjóra til að bera undir hann hugmyndir sínar. Síðast þegar Austurstræti var lokað fyrir umferð kvörtuðu verslunarmenn við götuna undan minnkandi viðskiptum og fallist var á að opna götuna á ný. Að mati Jójó eru tímarnir breyttir. "Nú eru langflestar þessara verslana horfnar, apótekið er orðið að veitingastað og andrúmsloftið er gjörbreytt. Unga fólkið í dag er líka allt annað og alveg til fyrirmyndar eftir að bjórinn var leyfður og er ekki ælandi af vodka og víni lengur. Á torginu er nýopnað skemmtilegt kaffihús og hér væri hægt að koma fyrir fallegum bekkjum, blómum og gosbrunni, jafnvel þrífa helsta remúlaðið af klukkunni. Þórólfur var mjög jákvæður og datt í hug hvort mögulega væri hægt að loka umferðinni á ákveðnum tímum eins og á sumrin þegar mannlífið er sem mest í bænum. Mér þætti það skárra en ekki neitt og við vorum nú bara að ræða víðsýnina í þessu. Fjöldi fólks hefur leitað til mín og beðið mig um að gera eitthvað í þessum málum því það veit hvað ég er flippaður. Ég tók því til minna ráða og hef verið að safna undirskriftum til að sýna borgarstjóra fram á áhuga almennings. Margir hafa skrifað undir og ég vona að Austurstrætið geti orðið friðsælli og rólegri gata. Listamönnum reynist erfitt að koma sér þar fyrir í öllum hávaðanum frá bílunum."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.