Innlent

Lögreglumaður sýndi snarræði

Mikil hætta skapaðist á Laugarvatni í fyrrinótt þegar maður, sem grunaður er um ölvun, ók um svæðið á miklum hraða. Hópur fólks, sem stóð úti á götu á Laugarvatni í fyrrinótt, gat með naumindum forðað sér undan bíl mannsins. Hann ók síðan á kyrrstæða bifreið en ökumaður þeirrar bifreiðar, Andri Freyr Halldórsson, sem var hálfur inni í bílnum að skipta um öryggi, slapp með skrekkinn ásamt farþegum sínum og lögreglumönnum frá Selfossi. "Ég hafði beygt mig niður og var að fikta í öryggjunum undir mælaborðinu þegar ég fæ bílinn á fullri ferð í hurðina fyrir aftan mig," segir Andri Freyr, sem hafði ætlað að bregða sér á náttfataball í Menntaskólanum á Laugarvatni ásamt nokkrum vinum sínum. "Við vorum flest í náttfötunum." Lögregluþjónn sýndi mikið snarræði þar sem hann stóð úti á miðri götu ásamt vinkonu Andra Freys þegar bifreið hins drukkna kom skyndilega aðvífandi. "Hann bjargaði hreinlega lífi hennar með því að stökkva á hana og fleygja henni með sér út í kant." Maðurinn ók áfram eftir áreksturinn, en var eltur uppi af lögreglu og handtekinn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×