Lífið

Jólahreingerningin framundan

Jólahreingerningin er framundan hjá þeim sem tíma hafa til, áhuga og orku. Það er ávallt mikið verk að taka allt í gegn og þrífa glugga, veggi og skápa, taka niður gluggatjöld og annaðhvort þvo þau sjálfur og strauja eða setja í hreinsun. Þetta gera samt margir einmitt á þessum árstíma til að bjóða jólunum inn í hrein híbýli sín. Sá siður hefur fylgt þjóðinni lengi þótt aðstæður hafi breyst í aldanna og áranna rás. Í þjóðháttabók Jónasar Jónssonar frá Hrafnagili segir m.a. svo: "Víða var til siðs að þrífa allt hátt og lágt fyrir jólin. Menn skiptu um nærföt og stundum var skipt á rúmunum og jafnvel mestu sóðar brutu venjur sínar og voru hreinir og vel til hafðir um jólin. Samkvæmt gamalli þjóðtrú lét Guð alltaf vera þíðviðri rétt fyrir jólin, til þess að fólk gæti þurrkað plöggin sín fyrir hátíðina og var þessi þurrkur kallaður fátækraþerrir." Þeir sem steikja laufabrauð í heimahúsum ættu að láta eldhúshreingerninguna bíða þar til sú stóraðgerð er yfirstaðin því henni fylgir óhjákvæmilega lykt og fita. Þeim sem eru með efri skápa sem safna fitu og ryki er bent á að til að komast hjá stanslausum stórþrifum þar uppi er upplagt að setja pappír (t.d. dagblöð) ofan á skápana og skipta um með reglulegu millibili. Þess þarf bara að gæta að pappírinn standi ekki fram af!





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.