Innlent

Enginn varanlegur skaði

Þrátt fyrir mikla röskun í lífi fatlaðra barna í verkfalli kennara er ólíklegt að það valdi þeim varanlegum skaða og að þeim fari aftur, segir Gyða Haraldsdóttir barnasálfræðingur og sviðsstjóri á Miðstöð heilsuverndar barna. Hún segir það geta tekið börnin daga, jafnvel vikur að ná fyrra öryggi sem í lífi þeirra var fyrir verkfallið. Gerður Aagot Árnadóttir, formaður Foreldra- og styrktarfélags Öskjuhlíðarskóla og móðir 11 ára drengs í skólanum, segir stöðu fjölskyldna fatlaðra barna vonlausa til lengri tíma. "Vikan er búin að vera erfið og við finnum það á krökkunum. Þau eru orðin ör og þola illa þennan þvæling milli staða." Hún segir son sinn þurfa aðhald og vitneskju um að hverju hann gangi. Hann eigi ekki vini nema þá sem hann hitti í skólanum. Hann þurfi að komast í sitt fasta form. Gyða segir óheppileg áhrif verkfalls kennara verða meiri eftir því sem það teygist á langinn: "Yfir heildina kemur svona röskun verr við fötluð börn en heilbrigð. Bæði af því að þau þola verr röskun á daglegum venjum og líka að þau meiga síður við að missa af þeirri kennslu og þálfun sem þau þurfa að fá." Gyða segir verkfallið ekki aðeins snúa að börnunum sjálfum heldur ekki síður fjölskyldulífi þeirra. Gerður segir málflutning kennara um stöðu fatlaðra barna undarlegan. Hún hafi trúað því að undanþága fengist svo börnin gætu sótt skóla: "Það eru kennararnir sem vinna mikið með fötluðu börnunum sem þetta segja. Þetta eru sömu kennararnir og berjast fyrir bættum kjörum vegna þess að vinna þeirra sé svo erfið, vegna þess að það sé svo mikið að börnum með sérþarfir og vegna þess að þeir þurfi að eyða svo miklum tíma í undirbúning. Á sama tíma segja þeir að það sé enginn munur á börnunum. Það er okkur foreldrum fatlaðra barna óskiljanlegt. Við höfum ekkert val. Okkur er stillt upp við vegg. Verkfallið bitnar á börnunum okkar og á öllu fjölskyldulífinu. Það er hart að þurfa að vera í þeirri stöðu."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×