Erlent

Harðir bardagar í Fallujah

Bandarískir skriðdrekar og fótgönguliðar hafa ráðist á járnbrautarstöð rétt innan borgarmarka Fallujah og láta skothríðina dynja á uppreisnarmönnum sem þar halda til. Árásarþyrlur og orrustuþotur sveima yfir borginni, reiðubúnar að leggja til atlögu þar sem mótstaðan verður mest. Bandaríkjamenn og stjórnvöld í Írak segjast staðráðin í að berja uppreisnina í Fallujah á bak aftur, í eitt skipti fyrir öll. Hernámsliðið réðst í nótt gegn skæruliðum í Fallujah þar sem talið er að nokkur þúsund uppreisnarmenn hafist við. Bardagar geisuðu víða í úthverfum og eru Bndaríkjamenn sagðir hafa náð tveimur mikilvægum samgöngumannvirkjum á sitt vald og að Írasksir hermenn hafi hertekið sjúkrahús í borginni. Ekki fer sögum af mannfalli. Árásin í nótt er talin marka upphaf einhverra umsvifamestu hernaðaraðgerða Bandaríkjamanna í Írak frá upphafi innrásarinnar og hafa þeir dregið saman hátt í 15 þúsund manna liðsafla til árásarinnar sem nýtur stuðnings stjórnarhermanna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×