Innlent

Skepnur eru hafðar lengur úti

Vegna hlýnandi loftslags er fé látið ganga lengur úti en áður tíðkaðist og ekki algengt að búið sé að loka fé inni í byrjun nóvember. "Ég man eftir því að búið var að loka fé inni um miðjan október, en ég held að nú sé fé yfirleitt úti hér sunnanlands," segir Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtaka Íslands. Hann segir viðhorf bænda til þess að taka skepnur á hús hafi verið að breytast síðustu ár. "Eins og í nautgripum til dæmis. Menn eru þess vegna farnir að nota óeinangruð hús fyrir mjólkurkýr. Það sem gildir er að hafa góða loftræstingu og vera laus við trekk." Haraldur taldi hita í fjósum hafa miðað frekar við þarfir bóndans en skepnanna. "Bara að bóndinn gæti verið á skyrtunni, þess vegna vildu menn hafa 16 stiga hita í fjósinu. En það fer ekkert betur með gripina nema síður sé," segir hann og bætir við að þótt mjólkurkýr séu nú komnar inn, sé alveg til í dæminu að þær séu settar út á fóðurkál og til viðrunar. "Það fer betur með skepnurnar. Nautgripum er líka víða gefið úti á skjólgóðum stöðum fram undir áramót."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×