Lífið

Keypti íbúð með rétta fílinginn

"Ég myndi segja að uppáhaldshúsið mitt væri það sem ég er að fara að flytja inn í á næstunni," segir Vignir Snær Vigfússon, gítarleikari hljómsveitarinnar Írafár. Reyndar segist Vignir ekki hafa mikið álit á húsunum í Reykjavík þar sem hann sé algjör sveitastrákur. "Ég og kærastan mín, Þorbjörg Sæmundsdóttir, fáum afhenta íbúð í Úthlíð í næsta mánuði. Við erum að vonum mjög glöð þar sem við erum búin að leita frekar lengi. Við eignuðumst lítinn snáða fyrir um sex mánuðum og fundum að við þyrftum að stækka við okkur," segir Vignir en þau Þorbjörg eru ekki óvön fasteignamarkaðinum. "Þetta er ekki í fyrsta sinn sem við kaupum þar sem við eigum nú íbúð á Sólvallagötunni. Við erum því alls ekki ókunnug sölu og kaupum og vitum hvernig við eigum að haga okkur." Eins og flestir vita þá er Vignir mikill tónlistarmaður og semur mikið af efninu sem Írafár spilar fyrir landann. Því liggur beinast við að hann hafi almennilega aðstöðu í nýja húsinu -- eða hvað? "Það fylgir bílskúr íbúðinni þannig að planið er að leggja hann undir stúdíó. Það er mjög gott að fá skúrinn því nú er ég með aðstöðu á rislofti á Sólvallagötunni sem er ekkert sérstök," segir Vignir og er alveg með á hreinu hvað olli því að Úthlíðin varð fyrir valinu en ekki eitthvað annað. "Við fórum í margar íbúðir en vantaði alltaf fílinginn sem segir manni: "hérna vil ég búa" en þegar við komum inn í íbúðina í Úthlíð þá fundum við strax að fílingurinn var svo sannarlega til staðar."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.