Viðskipti innlent

Össur selur eigur dótturfélags

Össur hf. hefur gengið frá kaupsamningi við fyrirtækið DRT Mfg.Co. Corporation um yfirtöku á eignum dótturfélagsins Mauch, Inc. í Dayton, Ohio, í Bandaríkjunum. Um er að ræða framleiðslutæki og viðskiptasambönd vegna framleiðslu á íhlutum til hryggígræðslu. Í tilkyningu frá Össurar segir að samhliða vexti samstæðu fyrirtækisins hefur á síðastliðnum árum verið unnið að því að hnitmiða starfsemi félagsins en þar er framleiðsla stoð- og stuðningstækja kjarnastarfsemi. Þannig hefur stoðtækjaframleiðsla Mauch verið skilin frá annarri framleiðslu dótturfélagsins og komið fyrir í öðrum framleiðslueiningum Össurar. „Það er ánægjulegt að geta tilkynnt að Össur hefur ákveðið að draga sig út úr allri starfsemi í Dayton og að jafnframt hefur tekist að tryggja starfsmönnum áframhaldandi störf hjá góðu fyrirtæki,“ segir Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar hf. Gary van Gundy, forstjóri DRT Mfg.Co. Corp., segir fyrirtækið eiga sér langa sögu í Dayton og víðar sem framleiðslufyrirtæki og hyggist nú hasla sér völl á sviði framleiðslu íhluta til ígræðslu. DRT tekur yfir tæki, leigusamninga og starfsmenn Mauch, Inc. í Dayton frá og með 1. janúar 2005 og mun fyrirtækið sjá um að framleiða íhluti fyrir Össur sem notaðir eru í gervihné fyrst um sinn. Sala Mauch nam 1,7% af heildarsölu Össurar á fyrstu þremur ársfjórðungum ársins 2004. Bókfært verð eigna Mauch, Inc. er 1,6 milljón dala og nemur söluverðið ríflega bókfærða verðinu en sala á Mauch, Inc. hefur óveruleg áhrif á rekstur og framlegð félagsins.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×