Innlent

Halldór vill ekki þurfa að bíða

Tveir umhverfisnefndarmenn Guðlaugur Þór Þórðarson, formaður nefndarinnar, og Mörður Árnason, Samfylkingu, hindruðu Halldór Blöndal, forseta Alþingis, í að koma frumvarpi sínu um takmörkun andaveiða í flýtimeðferð á þingi með því að senda það umræðulaust til nefndar. Taki enginn til máls um mál fara þau til afgreiðslu nefnda og hoppa þar með fram fyrir tugi ef ekki hundruð annarra mála á dagskrá þingsins. Guðlaugur Þór Þórðarson, formaður umhverfisnefndar, segir ástæðulaust að ræða ekki málið. Hann er andsnúinn því að byggja stefnu í umhverfismálum á tilfinningalegum grundvelli. "Endur eru ekki útrýmingarhættu." Bendir Guðlaugur Þór á að þetta sé hættulegt fordæmi í hvalamálinu. Aðspurður hvers vegna ekki megi friða endur eins og lóuna, sagði þingmaðurinn að rökstyðja mætti friðun lóu með hægri viðkomu hennar. Halldór Blöndal bendir á að varaþingmenn komi málum sínum strax á dagskrá og segist telja óeðlilegt að þingmenn sem flytji fá eða jafnvel bara eitt mál eins og hann þurfi að bíða. "Það er ótækt að gamlir þingmenn eins og ég þurfi að bíða fram í apríl." Hann sagði að sama gilti um mál sem hefðu þegar verið til umræðu á þinginu að eðlilegt væri að þau gætu farið beint til nefndar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×