Innlent

Vonir um samkomulag

Vonir eru bundnar við að á næstu dögum náist samkomulag um meginlínur í áframhaldandi viðræðum um alþjóðaviðskipti með landbúnaðarafurðir. Takist það hafa menn blásið lífi í viðræður sem stöðnuðu eftir að ráðherrafundi Alþjóða viðskiptastofnunarinnar í september lauk án samkomulags. Hópur tíu matvælainnflutningsríkja, sem Ísland er aðili að auk landa á borð við Noreg og Japan, fundaði í Genf og minnti á viðhorf sín en stjórnvöld í ríkjunum tíu óttast að leiðandi ríki í viðræðuferlinu gangi lengra en ríkin tíu telja sig ráða við. "Það sem sker þessi ríki úr er að þarna er um að ræða ríki sem flytja inn landbúnaðarvörur í verulega miklum mæli og eru því kannski veikari fyrir en útflutningsríki," segir Guðmundur B. Helgason, ráðuneytisstjóri í landbúnaðarráðuneytinu. Hann segir ríkin tíu öll reiðubúin að taka á sig tollalækkanir og stuðla að auknum markaðsaðgangi en vegna erfiðra framleiðsluskilyrða geti þau ekki gengið jafn langt og útflutningsríkin. Því verði að tryggja aðlögunartíma og sveigjanleika svo hægt sé að taka tillit til mismunandi aðstæðna, sama hver verður niðurstaða viðræðnanna. Bandaríkin og Evrópusambandið hafa leitt viðræðurnar og er stefnan sett á að draga verulega úr verndartollum og innflutningstakmörkunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×