Lífið

Vill sófann mjúkan

"Mér finnst gott að kasta mér í sófann minn að loknum vinnudegi og glápa á sjónvarp og góðar bíómyndir," segir Eggert Kaaber leikari sem segist vegna vinnu sinnar einnig nota sófann til að lesa yfir handrit. "Svo er líka voðalega gott að sofna í honum yfir sjónvarpinu," segir Eggert og hlær. "Fyrsti sófinn minn var blár og stílhreinn en soldið stífur en í dag eru sófar makindalegri og mýkri, þannig að þeir eru hlýrri eins og þessi sem ég á núna," segir Eggert og tekur það sérstaklega fram að núverandi sófa hafi hann fengið í Míru í Kópavoginum. Í nógu hefur verið að snúast hjá Eggert fyrir jólin en hann rekur farandleikhúsið Stoppleikhús og er með mikið af sýningum fyrir börn og unglinga eins og Hrafnkelssögu Freysgoða og Palli var einn í heiminum svo eitthvað sé nefnt. "Við höfum verið að þeytast um allt með jólaleikritið okkar Síðasta stráið sem er falleg jólasaga og er ég nú fyrst að komast í smá jólafrí," segir Eggert sem hlakkar til að slaka á og hefur sett sér það markmið að horfa á myndirnar þrjár um Hringadróttinssögu. "Ég ætla mér að splæsa í góða bíóstund með vinum og vandamönnum, í sófanum góða, að sjálfsögðu," segir Eggert að lokum.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.