Innlent

Skutu sér leið inn í íbúðina

Sjö eða átta menn réðust, vopnaðir haglabyssu, inn í íbúð í Fossvogi um klukkan tvö í fyrrinótt. Þeir skutu upp hurð til að komast inn í íbúðina með tveimur skotum úr haglabyssunni og gengu í skrokk á húsráðanda. Ungt par var í íbúðinni, konan náði að forða sér út en mennirnir handleggsbrutu manninn og veittu honum skurð á enni. Nágranni sem taldi sig hafa heyrt skothvelli hringdi í lögregluna sem sendi fjölda vopnaðra sérsveitarmanna á staðinn. Mennirnir voru horfnir af vettvangi þegar lögregluna bar að garði. Húsráðandi gat borið kennsl á þá sem voru að verki og hófst strax leit að mönnunum sem flestir hafa áður komið við sögu lögreglu. Skýrslur voru teknar af nokkrum mönnum, sem grunaðir eru um húsbrotið, í gær og á eftir að taka skýrslur af fleirum. Maðurinn sem varð fyrir árásinni vildi ekki tjá sig um árásina en honum var augljóslega brugðið. Handleggsbrotið og áverkinn, sem maðurinn fékk á ennið, voru veitt með barefli líklega golfkylfu sem tekin hafði verið úr golfsetti fyrir innan útidyrnar. Lögregla tók einnig til skoðunar hamar sem fannst í íbúðinni en óvíst er hvort árásarmennirnir beittu honum. Haglaskot eins og notuð eru við gæsaveiðar voru í haglabyssunni sem var skotið af. Rottweilerhundur húseigandans virðist ekki hafa ráðist að árásarmönnunum. Nágranni sem Fréttablaðið ræddi við segist rétt hafa rumskað við einhver læti og óp í konu en segir eiginmann sinn hafa heyrt mikil slagsmálalæti. Ómar Smári Ármannsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn í Reykjavík, segir ekki liggja fyrir hvert tilefni árásarinnar var. En segir öll mál sem þessi vera litin mjög alvarlegum augum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×