Innlent

Piltur lést í eldsvoða

Piltur um tvítugt fórst í bruna í einbýlishúsi við Bárustíg á Sauðárkróki í gær. Annar piltur fannst meðvitundarlaus í húsinu og var hann fluttur á sjúkrahús Sauðárkróks og þaðan til Reykjavíkur á gjörgæsludeild. Stúlka og piltur sem einnig voru í húsinu sluppu ómeidd en þau stukku út af annarri hæð hússins. Stúlkan var í þann mund að stökkva út um glugga á annarri hæð hússins þegar lögregla og slökkvilið komu á staðinn um klukkan ellefu í gærmorgun. Tveir vegfarendur náðu að grípa stúlkuna. Skömmu síðar stökk pilturinn út af svölum hússins. Þegar slökkviliðsmaður fór inn um þvottahúsið fann hann pilt meðvitundarlausan rétt við dyrnar. Móðir piltsins vinnur á sjúkrahúsinu, en hún tók á móti ungmennunum þar. Hún fór síðan með syni sínum til Akureyrar og þaðan með flugi til Reykjavíkur. Að sögn lögreglunnar er ástand piltsins stöðugt en hann var í öndunarvél þegar blaðið fór í prentun í gærkvöldi. Pilturinn sem lést fannst inn í stofu hússins þar sem er talið að eldurinn hafi komið upp. Fleiri ungmenni höfðu verið í samkvæmi í húsinu um nóttina en voru farin þegar eldurinn kviknaði. Slökkvistarf gekk greiðlega en mikill eldur var í húsinu þegar slökkvilið kom á staðinn. Húsið sem er steinhús er talið nánast ónýtt eftir brunann vegna gífurlegs hita sem myndaðist. Rannsókn málsins er á byrjunarstigi og ekki er ljóst um eldsupptök annað en að þau eru talin hafa verið í stofu á neðri hæð. Íbúar á Sauðarkróki eru mjög slegnir yfir brunanum. Tendra átti ljós á jólatré bæjarbúa með viðhöfn í gær en því var frestað þar til í dag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×