Lífið

Tvö fjölbýlishús í byggingu

Byggingarfélagið ÁK-hús ehf. á Selfossi vinnur nú að framkvæmdum við byggingu tveggja fjögurra hæða fjölbýlishúsa á byggingarlandinu við Fossland á Selfossi. Um er að ræða tveggja, þriggja og fjögurra herbergja íbúðir og verða tuttugu og tvær íbúðir í hvoru fjölbýlishúsi. Fjármögnun er í höndum Verðbréfastofunnar hf. en nú þegar hafa verið undirritaðir kaupsamningar um sölu allra íbúðanna í báðum húsunum og hafði fasteignasalan Stórhús í Reykjavík milligöngu um söluna. Annað húsið verður í eigu leigufélags sem mun eingöngu bjóða íbúðirnar út til leigu í framtíðinni en hitt húsið var keypt af fjárfestum sem einnig hyggjast leigja hluta íbúðanna út á almennum markaði. Byggingafélagið ÁK-hús ehf. er í eigu þeirra Ásgeirs Vilhjálmssonar og Kristjáns K. Péturssonar. "Byggingaframkvæmdirnar eru komnar á fullt og gengur vel. Við tókum fyrstu skóflustunguna að byggingunum 11. júní síðastliðinn og stefnt er á að framkvæmdunum verði að fullu lokið næsta vor. Við höfum einnig nýverið lokið við byggingu raðhúsa í sama hverfi og hafa þau þegar öll verið seld," segir Ásgeir Vilhjálmsson, annar eiganda ÁK-húsa ehf. Byggingarlandið við Fossland á Selfossi hefur á stuttum tíma breyst úr því að vera ein samfelld og óbyggð flatneskja í það að verða eftirsóknarverð íbúðarbyggð þar sem verið er að reisa allar gerðir íbúðarhúsnæðis og hefur sala eigna á þessum slóðum gengið vel.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.