Innlent

Óljóst með niðurskurð sjúkrahúss

"Það hafa engar ákvarðanir verið teknar að svo stöddu enda öll vinna enn í gangi," segir Magnús Stefánsson, formaður fjárlaganefndar Alþingis, vegna fjárlagafrumvarps ríkisstjórnarinnar fyrir næsta ár. Varaformaður nefndarinnar, Einar Oddur Kristjánsson, hefur látið hafa eftir sér að útilokað sé annað en að heilbrigðisráðherra hlíti fjárlögum en Geir Haarde fjármálaráðherra hefur enga ákvörðun tekið varðandi sparnaðartillögur stjórnar Landspítala-háskólasjúkrahúss.Er ákvörðunar hans beðið með nokkurri eftirvæntingu meðal stjórnenda spítalans en tekist hefur á þessu ári að spara helming þess sem ráð var fyrir gert. Að öllu óbreyttu þarf að spara rúmar 800 milljónir á næsta ári en meðal hugmynda stjórnarmanna spítalans er að minnka þjónustu meira en verið hefur og leggja á komugjöld. Heilbrigðisráðherra, Jón Kristjánsson, hefur vísað slíkum hugmyndum á bug og hefur átt fundi með fjármálaráðherra vegna þess. Magnús segir ekkert hafa verið ákveðið enn sem komið er. "Öll vinna er í sínu venjubundna ferli og ég á ekki von á að sú vinna skili neinu alveg strax. Það er ósköp eðlilegt á þessum tíma árs."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×