Innlent

Tekjur jöfnunarsjóðs lækka með lækkun skatta

Tekjur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga lækka varanlega um rúmar 400 milljónir þegar frumvarp til laga um lækkun tekjuskatts og eignarskatts kemur til fullra framkvæmda árið 2007, vegna lækkunar tekjuskatta, afnám eignarskatts og hækkunar persónuaflsáttar. Þetta kemur fram í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um frumvarpið. "Við reiknum með að þetta séu bara mistök," segir Gunnlaugur Júlíusson, sviðsstjóri hag- og upplýsingasviðs sambandsins. "Það er í gildi ákveðið samkomulag um fjárhag ríkis og sveitarfélaga og breytingar á því hljóta að vera samningsatriði en ekki einhliða ákvörðun." Hann bendir á að ef frumvarpið verður samþykkt óbreytt muni tekjur sjóðsins lækka um 90 milljónir á næsta ári og um 200 milljónir þegar eignarskattur verður felldur niður. Tekjur Jöfnunarsjóðsins eru að hluta bundnar 2,12% skatttekjum ríkissjóðs og í umsögninni er bent á þá leið að ef hlutfallið verði hækkað í nokkrum þrepum í 2,274% árið 2007 væri komið í veg fyrir að tekjur sjóðsins skerðist verulega.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×