Innlent

Vill utandagskrárumræðu um PISA-könnun

Niðurstöður PISA-könnunar um námsárangur íslenskra grunnskólabarna kalla á að það verði lyft grettistaki í skólamálum Íslendinga til að koma þjóðinni í fremstu röð í menntamálum. Þetta er mat Björgvins G. Sigurðssonar, fulltrúa Samfylkingarinnar í menntamálanefnd Alþingis. Björgvin hefur óskað eftir utandagskrárumræðu um málið á þinginu. Björgvin segir að þó að sumt í PISA- könnuninni sé jákvætt og horfi til framfara þá sé hún samt sem áður staðfesting á óviðunandi stöðu skólamála. Hið fyrsta þurfi að fara í gang vinna við að greina ástæður þess að árangurinn er ekki betri en raun ber vitni. Sérstaklega þurfi að kanna umhverfi og aðstæður finnska grunnskólans sem samkvæmt könnuninni skarar fram úr á öllum sviðum. Þá telur Björgvin að rannsaka þurfi sérstaklega með samanburði við önnur lönd, fyrirkomulag og inntak kennaramenntunar, námskrár skólanna og markmiðssetningar grunnskólanna almennt. Björgvin segir ljóst að grunnskólarnir hafi tekið framförum frá því að sveitarfélögin tóku við rekstri þeirra og þau veitt til þeirra fjármagni og afli langt umfram það sem ríksvaldið gerði. "En miklu betur má ef duga skal enda markmiðið að vera í fremstu röð. Þá er slakur árangur drengja í stærfræði verulegt áhyggjuefni sem og óviðunandi árangur barnanna í lestrarkunnáttu. Það þarf að ná þverpólitískri þjóðarsátt um betri grunnskóla. Þar þurfa allir að taka höndum saman, ríki, sveitarfélög, menntasamfélagið, atvinnulífið og stjórnmálamenn. Ná saman um markmið, leiðir og aukið fjármagn til menntamála. Bæði frá ríkisvaldinu og atvinnulífinu," segir Björgvin G. Sigurðsson.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×