Innlent

Mótmælir mannréttindabrotum í Kína

Ögmundur Jónasson, þingflokksfomaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, mótmælti mannréttindabrotum í Kína á fundi varaforseta kínverska þingsins, Wang Zhaouguo, og sendinefndar hans með fulltrúum þingflokkanna í ráðherrabústaðnum á Þingvöllum á laugardag. Ögmundur afhenti sendinefndinni skýrslu mannréttindasamtakanna Amnesty International og rakti helstu efnisatriði hennar. "Þó að við tökum á móti gestum frá Kína sem öðrum ríkjum þá má það aldrei fara svo að við látum það óátalið ef við teljum mannréttindi brotin á þeirra þegnum. Þess vegna fannst mér eðlilegt að koma þessum mótmælum á framfæri með skýrslu samtakanna," segir Ögmundur. "Þeir svöruðu því til að þeir bæru ekki traust til mannréttindasamtakanna Amnesty International og sögðu að þau væru ekki traustsins verð að sínum dómi og vísuðu þeim ásökunum sem þarna koma fram á bug." Ögmundur óskar á næstunni eftir fundi kínverska sendiráðsins til að fara yfir málið: "Sérstaklega mál þeirra sem hafa verið hnepptir í varðhald vegna verkalýðsbaráttu."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×