Lífið

Tímabundin endurkoma

Valdís Gunnarsdóttir er aftur  kominn í útvarpið, en bara þessa vikuna. Hún verður með þátt frá níu til hádegis á Mix 91,1 og má segja að örlögin hafi valdið því að hún endaði aftur í loftinu. Sjálf hafði hún ekki skipulagt endurkomu. "Ágúst Héðinsson hringdi í mig á miðvikudagskvöldi og var að fara til útlanda morguninn eftir. Hann spurði mig hvort ég gæti ekki tekið vikuna fyrir hann og ég harðneitaði og sagði honum að ég hefði engan tíma," segir Valdís. "Morguninn eftir kom grein í Fréttablaðinu sem Þórdís Lilja Gunnarsdóttir skrifaði þar sem ég var hvött til þess að koma aftur í útvarpið. Mér hefur hingað til fundist ég eiga að vera gera eitthvað annað, þar sem ný kynslóð er tekin við á útvarpinu." Greinin í Fréttablaðinu varð til þess að Valdís ákvað að láta á það reyna hvort hún hefði gaman af þessu aftur. Síðast vann hún sem útvarpskona á Létt FM 96,7 að undanskildum örfáum þáttum á Íslensku stöðinni um jólin fyrir tveimur árum og einu sinni á Valentínusardaginn. Fyrsti þátturinn hennar í langan tíma var á föstudaginn. "Ég fór inn klukkan 10 á föstudagsmorgun og tók tvo tíma. Klúðraði fullt fð hlutum og kunni ekki á símaborðið og svoleiðis. Tæknilegir örðugleikar, eins og skiljanlegt er." Hún segir útvarpsmenninguna hafa breyst heilmikið frá því að hún byrjaði. "Þetta er orðið allt öðruvísi. Metnaðurinn ekki jafn mikill og allt miklu tæknivæddra. Persónur skipta ekki lengur jafn miklu máli og valið á tónlistinni var miklu persónulegra áður. Fólkið sem talaði í hljóðnemann hafði aðdráttaraflið, það er ekki lengur svoleiðis," segir Valdís að lokum.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.