Lögreglan afhendir ekki myndband
![](https://www.visir.is/i/EAF51C7ED3CDD98A382F8FE7FDADF8CF7CC10B92A43934A70874F65DA0FC0D2B_713x0.jpg)
Barnaverndarstofa hefur óskað eftir umsögn Persónuverndar vegna tregðu Lögreglustjórans í Reykjavík við að afhenda myndbandsupptökur af skýrslutökum í kynferðisafbrotamálum. Persónuvernd telur ekkert í lögum standa því fyrir þrifum að Barnaverndarstofa fái umrædd gögn en segir jafnframt að það sé ekki á valdsviði sínu að skera úr um skyldu eins stjórnvalds til að afhenda öðru stjórnvaldi gögn. Lögreglustjórinn lítur hins vegar svo á að um sé að ræða viðkvæm sönnunargögn í sakamáli og því verði ríkissaksóknari eða æðra stjórnvald að skera úr þessum ágreiningi.