Innlent

Vélstjórar kæra eftir helgi

Vélstjórafélag Íslands stefnir að því að leggja fram kæru til félagsdóms á mánudag eða þriðjudag eftir helgi vegna stofnunar sérstaks félags um rekstur Sólbaks EA-7 frá Akureyri og samninga við áhöfnina. Helgi Laxdal, formaður Vélstjórafélagsins, gerir ráð fyrir að niðurstöðu dómsins sé svo að vænta innan þriggja vikna eftir að kæran er lögð fram. Helgi segir tvennt koma til greina í efni kærunnar. "Annars vegar er að samningurinn sem gerður var fyrir norðan sé fyrir neðan lágmarkskjör, sem væri þá í andstöðu við landslög. Svo væri hins vegar líka hægt að skoða málið út frá því hver tilgangurinn hafi verið með stofnun fyrirtækisins um rekstur Sólbaks." Helgi segir svo sterk tengsl milli Sólbaks og Brims að tæpast sé hægt að tala um aðskilnað. "Þá er spurning hvort þessu fæst ekki hnekkt með vísan til þess að þarna hafi verið um að ræða málamyndagjörning til þess eins að komast undan ákvæðum gildandi kjarasamninga." Helgi bendir á að ákvæði um 30 tíma stopp milli túra séu bundin í kjarasamninga sem gildi til ársloka 2005 og Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, hafi enga heimild til að breyta þeim eftir eigin hentugleika.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×