Innlent

Skattar meðallauna lækka um 30.000

Einstaklingur með eina milljón króna í mánaðarlaun sparar rúmar 270.000 krónur á næsta ári vegna boðaðra skattalækkana. Á sama tíma sparar einstaklingur með 250.000 króna mánaðarlaun, sem er nærri meðaltalslaunum, 30.000 krónur. Þetta kemur fram í útreikningum Alþýðusambands Íslands. Geir H. Haarde fjármálaráðherra kynnti nýlega tillögur ríkisstjórnarinnar um lækkun tekjuskatts. Samkvæmt þeim er gert ráð fyrir að almenn skattprósenta lækki um eitt prósentustig úr 38,6 í 37,6 og hátekjuskatturinn um tvö prósentustig, úr fjórum í tvö. Miðað við upplýsingar sem fengust í fjármálaráðuneytinu um að persónuafsláttur eigi að hækka um þrjú prósent og frítekjumark fyrir hátekjuskatt haldist óbreytt má gera ráð fyrir að hlutfall skatta af launum hjá einstaklingi með eina milljón á mánuði í laun lækki um 2,3 prósentustig, úr 38,4 prósentum í 36 prósent. Hjá einstaklingi með 250.000 krónur lækkar hlutfallið um eitt prósentustig, úr 27,3 prósentum í 26,3 prósent, og hjá einstaklingi með lágmarkslaun, 75.000 krónur, lækkar hlutfallið um 0,8 prósentustig, er 0,8% en fer í núll prósent. Gylfi Arnbjörnsson, framkvæmdastjóri Alþýðusambandsins, segir ljóst að skattalækkunin gagnist hinum tekjulægstu afar lítið. "Í raun er verið að lækka skatta þeirra sem betur mega sín, bæði í formi tekjulækkunarinnar en einkum og sér í lagi með lækkun hátekjuskatts. Það hefði komið sér betur fyrir ríkissjóð og hina tekjulægri, til dæmis ellilífeyrisþega, að hækka bótagreiðslur og lífeyrisgreiðslu. Það hefði kostað ríkið minna en skattalækkanirnar, sem áætlað er að kosti um fimm milljarða, valdi minni þenslu og líka orðið áþreifanlegra fyrir tekjulægstu hópana."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×