Innlent

Haustið 2008 að ein­hverju leyti „reyfarakennt“

Heimir Már Pétursson og Samúel Karl Ólason skrifa
Geir H. Haarde.
Geir H. Haarde. Vísir/Einar

Ævisaga Geirs H. Haarde, fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra, kom út í dag. Geir segist hafa talið það hálfgerða skyldu sína að skrifa bók um viðburðaríka ævi sína.

„Það má segja það að haustið 2008 hafi að mörgu leyti verið reyfarakennt,“ sagði Geir í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld. „Það var margt sem gerðist og ég reyni nú að vera með greinargóða frásögn og styðjast við mínar eigin heimildir sem hafa kannski ekki allar komið fram opinberlega.“

Hann segir bókina fjalla um mun meira en mánuðina kringum hrunið 2008. Hún sé ævisaga sem nái yfir æskuár hans og það helsta á hans æviferli.

„Það er svo merkilegt þegar maður hugsar til baka að maður hefur upplifað svo margt á viðburðaríkri ævi sem einhverjir aðrir hafa kannski gaman af að lesa um. Það er svolítið drama hér og þar í bókinni, skemmtisögur og vísur og svoleiðis.“

Þá sagðist Geir hafa talið að honum bæri hálfgerð skylda til að skrifa bókina vegna þeirra starfa sem hann hefði gegnt í gegnum árin.

Við skrifin notaðist Geir meðal annars við dagbækur sem hann hefur haldið af og á í gegnum árin.

„Síðan auðvitað leitar maður í gögnum. Maður þurfti að gramsa heilmikið, bæði í persónulegum gögnum og myndum og fleiru. Síðan fór ég á aðrar slóðir eins og söfn og fleira.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×