Viðskipti innlent

Bankarnir neita samráði

Bankarnir eru í hatrammri samkeppni og ræða aldrei nokkurn tíman verð til viðskiptavina á sameiginlegum fundum sínum, fullyrðir framkvæmdastjóri Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja og býðst til að sýna fundargerðir því til sönnunar. Bankastjórar fjögurra banka sitja saman í stjórn samtakanna.  Viðskiptabankarnir höfðu samráð í fyrra um að hámarkslán til íbúðakaupa mætti ekki fara yfir 12 milljónir króna, annars væri hætta á verulegri ofþenslu. Þeir sammæltust einnig um gjaldskrá og sendu tillögurnar í bréfi til félagsmálaráðherra í fyrrahaust sem var þá að útfæra ný húsnæðislán. Þetta var allt gert undir hatti Samtaka banka- og verðbréfafyrirtækja þar sem fjórir bankastjórar viðskiptabankanna sitja saman í stjórn. Pétur Blöndal, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, sagði í fréttum Stöðvar 2 í gær að hann teldi það óeðlilegt og bætti svo við: „Maður spyr sig hvað gerist í svona nefnd; hvort það sé eitthvað samráð þarna eða hvort hún sé eingöngu á faglegum nótum.“ Jóhanna Sigurðardóttir, þingmaður Samfylkingar, segir þetta afar óeðlilegt fyrirkomulag og að það þurfi að skoða, eins og hún hafi reyndar bent á í efnahags- og viðskiptanefnd.   Guðjón Rúnarsson, framkvæmdastjóri Samtaka banka- og verðbréfafyrirtækja, bendir á að félagsmálaráðherra hafi beðið um þetta álit og því fullkomlega eðlilegt að svara. Hann segir ekkert leyndarmál hvað fari fram á stjórnarfundum samtakanna og sýnir fundargerðir því til sönnunar. Guðjón segir að meðal þess sem rætt sé á fundunum séu öryggismál, forvarnir gegn bankaránum, eiginfjárreglur fjármálafyrirtækja, reikningsskilareglur og s.frv, og segir slíkan samstarfsvettvang nauðsynlegan. Spurður hvort ekki séu rædd verð til viðskiptavina á fundunum segir Guðjón það aldrei nokkurn tíman vera gert. Það liggi í hlutarins eðli að slíkt sé harðbannað samkvæmt samkeppnislögum, auk þess sem aðilar að samtökunum séu í hatrammri baráttu sín á milli og hafi því ekki minnsta áhuga á að ræða slík mál. Guðjóni finnst miður að þessu tvennu sé bendlað saman.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×