Innlent

Alli ríki hættur útgerð

Alli ríki, eða Aðalsteinn jónsson útgerðarmaður á Eskifirði, er endanlega hættur útgerð og Elvar Aðalsteinsson, sem verið hefur starfandi stjórnarformaður Eskju hefur selt allan sinn hlut og lætur af stjórnarformennsku. Kaupendur eru Kristinn Aðalsteinsson, sonur Alla og Þorsteinn Kristjánsson tengdasonur hans og skipstjóri á Hólmaborgu, sem báðir voru í stjórn félagsins og áttu fyrir þriðjungs hlut hvor, eins og Elvar. Áður en Elvar seldi sinn hlut hafði Aðalsteinn skipt fyrirtækinu upp á milli barna sinna. Þeir Kristinn og Þorsteinn ráða nú öllu hlutafé í félaginu og sagði Þorsteinn í viðtali við Fréttastofu að ekki hefði verið ákveðið hvort þeir héldu öllum hlutnum, en viðskiptin hafi borið brátt að. Elvar segir í tilkynningu um söluna að hann ætli að snúa sér að eigin útgerð. Eskja á meðal annars fjölveiðiskipin Hólmaborgu og Jón Kjartansson, einn togara og rekur umsvifamikla bræðslu og bolfiskvinnslu á Eskifirði. Fyrirtækið hét lengst af Hraðfrystihús Eskifjarðar en nafninu var breytt í Eskju fyrir nokkrum árum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×