Viðskipti innlent

Stýrivextir Seðlabankans hækka um 1%

Verðbólguspá Seðlabankans gerir ráð fyrir að verðbólga fari langt upp fyrir markmið Seðlabankans á næsta og þar næsta ári. Stýrivextir Seðlabankans hækka um eitt próesentustig og verða 8,25% frá 7. desember n.k. Þetta er mun meiri hækun en greiningardeildir viðskiptabankanna höfðu spáð fyrir um. "Til þess að hafa nægilega skjót áhrif á verðbólguna þarf að bregðast hratt og tímanlega við," sagði Birgir Ísleifur Gunnarsson seðlabankastjóri í gær. Vaxtahækkunin er sú mesta sem Seðlabankinn hefur tilkynnt um í einu vetfangi. Þetta kemur ofan á aðrar vaxtahækkanir í ár en Seðlabankinn hefur nú hækkað stýrivexti um 2,95 prósentustig í ár. Ný þjóðhagsspá Seðlabankans gerir ráð fyrir mun meiri hagvexti en áður var spáð. Í síðustu þjóðhagsspá, sem gefin var út í júní, var gert ráð fyrir að hagvöxtur í ár yrði 4,3 prósent, 4,7 á næsta ári og 4,5 árið 2006. Nú spáir Seðlabankinn 5,4 prósenta hagvexti í ár, 6,1 prósents á næsta ári og 4,9 prósent árið 2006. Fram kom í máli Birgis Ísleifs að viðbrögð einstaklinga við auknum lánamöguleikum hafi verið kröftugri en búist var við. Þetta gerir það að verkum að einkaneysla er talin munu aukast hraðar en áður var talið auk þess sem verðmæti íbúðarhúsnæðis muni hækka hraðar. Seðlabankinn bendir einnig á að framkvæmdir við stóriðju verði fyrr en áður var gert ráð fyrir. Birgir Ísleifur sagði einnig að skattalækkanir ríkisstjórnarinnar hefðu áhrif. "Það verður að telja verulegar lílkur á því að aðhald í opinberum fjármálum verði ófullnægjandi," sagði hann. Seðlabankinn gerir ráð fyrir að yfirlýst markmið fjármálaráðuneytisins um aðhald í ríkisrekstri standist ekki. Seðlabankinn gerir ráð fyrir að vöxtur samneyslunnar verði meiri en ráðuneytið heldur fram. Seðlabankinn tilkynnti einnig í gær að bankinn muni hætta kaupum á gjaldeyri til að styrkja gjaldeyrisforða bankans. Þessi ákvörðun er einnig talin stuðla að styrkingu krónunnar. Peningmál, ársfjórðungsrit Seðlabankans.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×