Innlent

Vafi um hæfi til stjórnarsetu

Seta Kristins Björnssonar, fyrrverandi forstjóra Skeljungs, og Einars Benediktssonar, forstjóra Olís, í stjórnum fjármálafyrirtækja kann að brjóta í bága við lög um fjármálafyrirtæki. Þeir áttu í markvissu og skipulögðu samráði í störfum sínum hjá olíufélögunum samkvæmt niðurstöðu Samkeppnisráðs. Taldi ráðið að olíufélögin hefðu hagnast um 6,5 milljarða króna á samráðinu. Í 52. grein laga um fjármálafyrirtæki er fjallað um hæfisskilyrði stjórnarmanna í slíkum fyrirtækjum. Þar segir að þeir megi ekki hafa sýnt af sér háttsemi sem gefur tilefni til að ætla að þeir misnoti aðstöðu sína. Kristinn Björnsson er nú stjórnarformaður fjárfestingarbankans Straums en hann og tengdir aðilar eiga tólf prósent í bankanum. Aðspurður hvort hann ætli að sitja áfram í stjórn Straums segir Kristinn að hann hafi verið kosinn til að sitja í stjórninni og hann fái ekki séð að lögin komi í veg fyrir það. Einar Benediktsson situr í stjórn Landsbankans sem óháður en ekki í krafti eignar í bankanum. Fréttablaðið hefur ekki náð tali af honum en hann mun nú dvelja í útlöndum. Aðalfundur Landsbankans verður haldinn eftir um tvo mánuði. Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með lögum um fjármálafyrirtæki. Stofnunin gefur ekki upp hvort málið sé til athugunar hjá henni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×