Erlent

Bush á erfitt verk fyrir höndum

"Það verður erfitt verk forseta að skapa breiða og öfluga samstöðu bandarísku þjóðarinnar eftir þann djúpstæða ágreining sem hér hefur birst," segir Ólafur Ragnar Grímsson forseti eftir úrslit kosninga í Bandaríkjunum: "Ég vona að endurkjör Bush verði til þess að samband Íslands og Bandaríkjanna verði áfram öflugt og byggt á gagnkvæmum skilningi og þeirri vináttu sem einkennt hefur þjóðirnar um langt árabil." Ólafur segir að sem gömlum fræðimanni í stjórnmálum þyki honum fróðlegt hve málefnalegur klofningur í Bandaríkjunum sé í raun og veru orðinn meiri en í flestum Evrópulöndum. "Hér áður fyrr var talið að í Bandaríkjunum væri munurinn á flokkunum svo lítill að það skipti nánast ekki máli hver ynni kosningarnar en í Evrópu væri hyldjúp hugmyndafræðileg gjá milli flokka og fylkinga. Nú er eins og þetta sé að snúast við." Ólafur segir að það lýsi sér í gífurlegum ágreiningi í öllum umræðum í kosningabaráttunni í öllu milli himins og jarðar: "Málefni sem í Evrópu eru utan við vettvang hinna daglegu stjórnmála en eru hér greinilega átakaefni."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×