Nótt hinna röngu vísbendinga
Nótt hinna röngu vísbendinga væri réttnefni á kosninganóttinni sem nú er að baki. Sjaldan eða aldrei hafa álitsgjafar og sérfræðingar oftúlkað og rangtúlkað þær vísbendingar sem þeir hafa haft til að vinna úr jafn mikið. Fyrsta vísbendingin voru langar raðir við kjörstaði um það leyti sem átti að loka þeim. Sérfræðingar sjónvarpsstöðvanna óttuðust vandræði en engar fregnir hafa borist af neinu slíku heldur virðist sem þeir sem voru mættir tímanlega í röð hafi fengið að kjósa. Metkjörsókn var og allt gekk meira og minna vel. Næsta vísbendingin var sagan: Mikil kjörsókn, hátt hlutfall nýskráðra, minnihlutahópar duglegir við að kjósa. Sagan sagði að allt þetta þýddi að demókratar væru í sókn - en margt hefur breyst hér vestra frá því haustið 2001 og sagan reyndist ekki gefa neinar vísbendingar um hvað var á seyði. Þriðja vísbendingin voru fyrstu tölur úr útgönguspám sem fjölmiðlar hér vitnuðu þó ekki beint til. Álitsgjafarnir voru þó greinilega með þær á hreinu og útskýrðu hvers vegna Kerry væri í stórsókn. Raunveruleikinn kom óneitanlega flatt upp á þá sem hafa atvinnu sína af því að spá í spilin, kanna og útskýra. George Bush var með forskot á John Kerry nánast frá upphafi. Tölur úr hverju ríkinu á fætur öðru sýndu að forsetinn átti mikið bakland og að sérfræðingahersveitir höfðu ekki unnið heimavinnuna sína nægilega vel.