Innlent

Ákærðir fyrir hasssmygl

22 ára maður er ákærður af Ríkissaksóknara fyrir innflutning á samtals fimmtán kílóum af hassi í þremur skipaferðum frá Danmörku frá júní í fyrra þar til í janúar á þessu ári. Þrír menn eru ákærðir fyrir að hafa staðið að innflutningnum að hluta með manninum. Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Maðurinn er sagður hafa sett tvö kíló af hassi í varadekk bíls og flutt til landsins með Norrænu í júní á síðasta ári. Efnin á hann að hafa afhent einum mannanna sem ákærðir eru með honum. Sá afhenti þriðja manninum 1,2 kíló til sölu en á sjálfur að hafa selt hálft kíló. Maðurinn á aftur að hafa keypt hass ytra, nú fimm kíló, og komið þeim fyrir í fjórum hjólbörðum sem hann sendi einum fjórmenninganna með Dettifossi. Sá tók á móti efnunum og fór með þau í íbúð í Hraunbæ þar sem fjórmenningarnir bjuggu allir saman á þeim tíma. Enn og aftur er maðurinn sagður hafa farið utan og keypt nær átta kíló af hassi. Hassið á hann að hafa falið í fjórum hjólbörðum sem hann sendi einum fjórmenningana, þá með Goðafossi. Sá sem fékk efnin send sótti þau í vöruafgreiðslu Eimskips en var handtekinn af lögreglu skömmu síðar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×