Viðskipti innlent

Skattaóvissa Norðurljósa ástæðan

Og Vodafone hætti við að kaupa allt hlutafé í Norðurljósum en eignast samt Íslenska útvarpsfélagið og Frétt ehf. Forstjóri félagsins segir óvissu varðandi skattamál Norðurljósa valda þessari breytingu. Kaupin á félögunum tveimur kosta 5800 milljónir. Um er að ræða breytingu frá fyrri áætlun sem gekk út á að Og Vodafone myndi kaupa Norðurljós eins og þau leggðu sig. Eiríkur S. Jóhannsson, forstjóri Og Vodafone segir ástæðuna fyrst og fremst óuppgerð skattamál Norðurljósa því í þeim felist mikil óvissa. Norðurljós sé eignarhaldsfélag sem eigi tvö rekstrarfélög Og Vodafone sé á höttunum á eftir þeim. Því liggi beinast við að þau séu keypt en óvissan skilin eftir. Aðspurður hvað verði eftir af Norðurljósum segir Eiríkur að félagið verði eftir sem áður eignarhaldsfélag sem í fyrstunni muni eiga hlutabréf í Og Vodafone. Að öðru leyti vísar hann í forsvarsmenn Norðurljósa. Hjá Skarphéðni Berg Steinarssyni, stjórnarformanni Norðurljósa, fengust þau svör að eftir stæði í Norðurljósum eignir sem ekki tengdust fjölmiðlum, sem og skuldir og skatttaskuldbindingar, m.a. skattaskuldbindingar úr tíð Jóns Ólafssonar, fyrrverandi eiganda Norðurljósa.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×