Innlent

Ráðherra ver íslenska bankakerfið

Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, segir að skrif í Berlingske Tidende um íslenskt viðskiptalíf sé að nokkru leyti ósanngjörn og að sumar fullyrðingar blaðsins bendi til að ónæg þekking búi að baki. "Við höfum lagt okkur mjög fram um að vera hér með umhverfi á markaðinum sem er í samræmi við það sem er í löndum sem við berum okkur saman við. Það er ekki hægt að halda því fram að það sé eitthvað öðruvísi og svo virðist sem þessir aðilar hafi ekkert kynnt sér íslenska löggjöf úr því að þeir koma fram með svona fullyrðingar," segir Valgerður. Hún segir það jákvætt að eftir íslenskum fjárfestum sé tekið. "Þegar fjárfestar eru svona áberandi þá geta þeir vænst þess að fá neikvæða umfjöllun og þurfa að svara henni," segir Valgerður. Hún telur hins vegar umfjöllunina um KB banka vera ósanngjarna. "Það er verið að halda því fram að bankinn sé að gera hluti sem víðast hvar séu bannaðir. Það er bara ekki rétt. Hér gilda alveg sömu meginreglur og almennt á Evrópska efnahagssvæðinu," segir hún. Ole Mikkelsen, sem skrifað hefur um eignatengsl í íslensku viðskiptalífi í Berlingske, segir að þar hafi verið gagnrýnt að á Íslandi leyfist viðskiptabönkum að eiga hluti í fyrirtækjum. "Eins og við sjáum þetta þá er mikið um gagnkvæm eignatengsl á Íslandi sem ekki eru leyfð í Danmörku. Þetta er gjörólíkt Danmörku og þetta má ekki nema í örfáum löndum," segir Mikkelsen. "Það sem við skrifum er það sem heimildarmenn okkar segja okkur. Þeir segja okkur að það séu vandamál vegna gagnkvæmra eignatengsla því stjórnendur banka og fyrirtækja séu of nánir," segir Mikkelsen og nefnir sérstaklega hlut KB banka í Baugi Group.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×