Viðskipti erlent

Gengi dollars lækkar enn

Gengi dollarans hefur enn lækkað gagnvart íslensku krónunni og gagnvart evrunni hefur það aldrei verið lægra. Áhrifin hér á landi virðast þó harla lítil. Á alþjóðavettvangi eru nokkrar áhyggjur vegna falls dollarsins, einkum gagnvart evrunni. Er svo komið að evrópski seðlabankinn og fjármálaráðherrar Evrópusambandsríkjanna sendu í gær frá sér yfirlýsingu þess efnis að hátt gengi evrunnar væri vandamál. Fjárfestar virðast hins vegar ákveðnir í að losa sig við sem mest af dollurum og því lækkar gengi enn. Gagnvart krónunni er dollarinn einnig mjög veikur. Fyrir hádegi var sölugengið 62 krónur og 40 aurar en var á föstudag rúmlega 63 krónur. Samkvæmt upplýsingum frá Íslandsbanka nemur lækkun morgunsins 0,31 prósenti. Mikil lækkun dollarsins ætti að hafa nokkra vöruverðslækkun í för með sér en enn sem komið er virðist sem að einungis amerískir bílar hafi lækkað í verði - annað ekki. Einkum hefur þar verið litið til matvöru en samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni voru á síðasta ári 8,8% matvæla flutt inn frá Bandaríkjunum og 7% neysluvarnings.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×