Innlent

Kanna hvort frumvarpið sé þinglegt

Hart var deilt á ríkisstjórnina á Alþingi í gær þegar þing kom saman til sumarfundar eftir rúmlega mánaðarhlé. Á fundinum var nýtt frumvarp ríkisstjórnarinnar um eignarhald á fjölmiðlum lagt fram en snarpar umræður urðu um störf þingsins. Halldór Blöndal, forseti þingsins, sleit þingfundi um hálfri klukkustund eftir að hann hófst þrátt fyrir að fjölmargir þingmenn hefðu beðið um orðið og biðu eftir að komast að. "Ég hafði fullgilt tilefni til að kveða mér hljóðs. Ég hafði lagt fram spurningu í umræðunum um störf þingsins þar sem ég spurði hvort stjórnarfrumvarpið væri þinglegt, hvort ekki fælist í því augljós ásetningur eða fyrirætlan að fara á svig við stjórnarskrána og hafa af mönnum þjóðaratkvæðagreiðslu með brellum," segir Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, um uppþotið sem varð í alþingishúsinu að loknum þingfundi í gær. Lagt hafði verið fram breytt frumvarp ríkisstjórnarinnar um eignarhald á fjölmiðlum og voru þingmenn að ræða um störf þingsins. Samkvæmt þingsköpum þarf að dreifa frumvarpi á Alþingi tveimur sólarhringum áður en umræða um það hefst og því mun umræða um nýtt fjölmiðlafrumvarp ekki hefjast fyrr en á morgun. "Samkvæmt þingsköpum hafa fundarmenn þennan rétt og veit ég engin fordæmi þess að þingmönnum hafi verið neitað um hann. Þetta eru einfaldlega mistök í þingsköpum og hlýtur forseti þingsins að átta sig á þeim og sjá eftir þeim," segir Steingrímur. Í samtali við Fréttablaðið sagðist Halldór hafa slitið fundi þar sem hann hefði talið málið útrætt. Að loknum þingfundi átti forseti Alþingis fund með formönnum þingflokka stjórnarandstöðunnar og sagði Halldór þann funda hafa verið afar gagnlegan. "Að loknum þeim fundi ákvað ég að verða við beiðni um að láta kanna hvort frumvarp ríkisstjórnarinnar væri þinglegt," sagði Halldór Stjórnarandstaðan lýsti eindreginni mótstöðu við frumvarpið á Alþingi í gær og jafnframt fyrirætlan ríkisstjórnarinnar að ræða ekki lög um þjóðaratkvæðagreiðslu á sumarþingi eins og boðað hefði verið. Frumvarp formanna stjórnarandstöðuflokkanna um þjóðaratkvæðagreiðslu var sent fjölmiðlum í gær



Fleiri fréttir

Sjá meira


×