Lífið

Tómas Lemarquis í franskri bíómynd

Tómas Lemarquis sem fór eftirminnilega með hlutverk Nóa albinóa í samnefndri kvikmynd er nú staddur í Frakklandi við tökur á nýrri franskri bíómynd. "Myndin nefnist La Maison de Nina eða Húsið hennar Nínu og er eftir franska leikstjórann Richard Dembo," segir Tómas Lemarquis en leikstjórinn Richard Dembo á að baki tvær stórmyndir og hlaut meðal annars Óskarinn árið 1984 þegar mynd hans, Diagnoal du fou eða Dangerous Moves, var kosin besta erlenda myndin. Í Húsinu hennar Nínu leikur Tómas þýskan kommúnista. "Ég leik mann sem hefur dvalið átta ár í fangabúðum nasista. Þegar hann sleppur út tekur hann með sér 26 gyðingabörn úr útrýmingabúðunum og fer með þau í hús Nínu, sem er nokkurs konar munaðarleysingjaheimili. Í húsi Nínu eru fyrir krakkar sem hafa verið skilin eftir í Frakklandi þegar foreldrar þeirra voru teknir í útrýmingarbúðir og myndin fjallar um átökin sem verða milli barnanna sem fyrir eru í húsinu og nýju krakkanna sem eru að vonum hálfvillt eftir að hafa þurft að eyða lífinu í útrýmingabúðum nasista," segir Tómas sem vinnur nú að þýskunni með tungumálaþjálfara en í myndinni talar hann bæði þýsku og frönsku með þýskum hreim. Ein vinsælasta leikkona frakka um þessar mundir, Agnes Jaoui, fer með hlutverk Nínu sem er aðalhlutverkið í myndinni. "Agnes Jaoui er mjög virt hér á landi en auk þess að vera leikkona er hún kvikmyndaleikstjóri. Myndin, Look at me, hefur til dæmis nýverið hlotið gullpálmann í Cannes fyrir besta handritið en Agnes leikstýrði myndinni og skrifaði jafnframt handritið í samvinnu við Jean Pierre Bacri." Tómas flutti til Frakklands síðastliðið haust. "Ég hef verið í leikprufum hér af og til í vetur en er líka búinn að halda hér myndlistarsýningu," segir Tómas sem útskrifaðist frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands fyrir einu ári. "Nýlega fékk ég svo umboðsmann hérna úti og hlutverkið í Húsi Nínu er það fyrsta sem ég fæ hér í Frakklandi," segir Tómas sem byrjaði að leika í frönsku myndinni síðastliðinn mánudag og verður af og til í tökum þar til í ágúst. "Það er frábært tækifæri að fá að starfa með þessum virta leikstjóra og þessu toppliði franskrar kvikmyndagerðar. Vonandi hjálpar það bara boltanum að halda áfram að rúlla." tora@frettabladid.is





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.