Innlent

Þjóðarhreyfingin fyrir nefndina

Fulltrúar Þjóðarhreyfingarinnar eru á meðal þeirra sem veða kallaðir á fund allsherjarnefndar á morgun vegna frumvarps ríkisstjórnarinnar og frumvarps stjórnarandstöðunnar. Formaður nefndarinnar áætlar að hún ljúki umfjöllun sinni í lok næstu viku. Leiðtogar stjórnarandstöðuflokkanna tóku sæti í allsherjarnefnd Alþingis þegar nefndin kom saman í dag. Tveimur málum var vísað til allsherjarnefndar í gær: fjölmiðlafrumvarpi ríkisstjórnarinnar og frumvarpi stjórnarandstöðunnar um þjóðaratkvæðagreiðslur. Fjallað var um bæði mál á fyrsta fundi nefndarinnar. Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, segir stjórnarandstöðuna hafa lagt mesta áherslu á að kannað yrði með aðstoð sérfræðinga, áður farið yrði efnislega í málið, hvort í raun sé hægt að svipta þjóðinni hinum stjórnarskrárbundna rétti til að kjósa í þjóðartkvæðagreiðslu.  Bjarni Benediktsson, formaður allsherjarnefndar, segir að orðið verði við þeirri beiðni að farið sé yfir þessi lögfræðilegu álitaefni, sem og önnur sem komið hafi upp við framlagningu þessa máls. Hann býst við að nefndin ljúki störfum í lok næstu viku en strax á morgun koma ýmsir stjórnlagafræðingar á fund allsherjarnefndar. Þá hefur fulltrúum Þjóðarhreyfingarinnar einnig verið boðið á fund.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×