Lífið

Átti ekki fyrir sjampói um tíma

"Ég fór upphaflega til Englands til þess að fara í skóla. Þetta var listaskóli í Liverpool sem er rekinn undir nafni Paul McCartney," segir Heiðrún Anna Björnsdóttir, sem var þarna við nám á sama tíma og Björn Jörundur úr Ný danskri sem var í leiklistarnámi, Gunnar Bjarni úr Jet Black Joe sem var í tónlistarnámi og Gottskálk Dagur sem var í leiklist eins og Björn. "Þetta var alveg rosalega dýrt nám, ég var þarna í tónlistardeild mig langaði alltaf til þess að fara í tónlistarnám þó svo að ég hafði sótt um í leiklistarskólann hér heima eftir að ég var í Hárinu. Ég komst í 16 manna hópinn en fór ekki inn á endanum, þá ákvað ég að snúa mér alfarið að tónlistinni," segir Heiðrún Anna sem hafði auk þess að leika Hárinu verið í stuttmyndinni Nautn sem Gusgus gerði og kvikmyndinni Nei er ekkert svar eftir Jón Tryggvason. Hún var eitt ár í skólanum í Liverpool. "Ég var alveg ákveðin í því að láta á það reyna hvort ég gæti ekki komið mér áfram í tónlistinni þarna úti. Ég stofnaði hljómsveitina Gloss með nokkrum strákum og við fengum fljótlega mjög góðan plötusamning við útgáfufyrirtækið Nude sem gaf út Suede. Það var frábært að geta lifað af tónlistinni og við tókum upp heilmikið efni, fórum í tónleikaferðalög um Evrópu og allt virtist vera að ganga upp. Skyndilega lýsir útgáfufélagið sig gjaldþrota og þar með hrundi okkar spilaborg. Við vorum nýbúin að klára breiðskífuna okkar og taka upp mjög flott myndband sem kostaði yfir 10 milljónir. Þetta var náttúrlega brjálað áfall fyrir okkur, það var einhvernveginn allt við það að fara gerast og þá stóðum við uppi með báðar hendur tómar," segir Heiðrún. "Við höfðum verið á tónleikaferðalagi um Evrópu með öðru bandi, Haven, og ég byrjaði að vera með söngvaranum í þeirri hljómsveit eftir að við komum aftur til Bretlands. Hann er alveg ótrúlega góður söngvari og þeir eru með samning þannig að hann er í betri málum en ég að því leyti. Það var svo skrítið á meðan á ævintýrinu stóð að ég hugsaði oft til þess að þetta gæti endað eins skyndilega og það gerði. Ég man þegar við vorum að gera myndbandið þá sveif yfir mig sú tilfinning að þetta væri allt saman of gott til að endast. Við leystum bara bandið upp í kjölfarið, það var mjög leiðinlegt. Ég lifði á loftinu og átti ekki einu sinni fyrir sjampói þegar verst stóð á. Ég fór svo í gegnum svona hálfgerða uppgjöf á bransanum. Ætlaði jafnvel að gera eitthvað allt annað og var næstum því búin að skrá mig í innanhúshönnun. En svo er þetta bara svo ótrúlega skemmtilegt þó að tónlistabransinn sé erfiður að þá ætla ég að halda ótrauð áfram og er að vinna að nokkrum spennandi verkefnum núna. Það er alveg nóg að gera, en málið er að það tekur bara allt miklu meiri tíma hér en heima Íslandi," sagði þessi hressa söngkona áður en hún stökk upp í flugvél til London á leiðinni heim til Manchester.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.